Almennar spurningar
Get ég skilað og/eða skipt?
Þar sem að margir af okkar viðskiptavinum eru í hæðsta áhættuflokki hvað varðar umgangspestir þá eru skila og skiptireglurnar hjá okkur strangari en oft er. Vörur þurfa að vera ónotaðar og í óopnuðum umbúðum. Ekki er hægt að skila hárkollum nema um galla sé að ræða. Til að bæta upp þessar stífu skiptireglur bjóðum við upp á persónulega aðstoð og mátun samkvæmt tímapöntun.
Hvernig get ég greitt fyrir vörur?
Hægt er að greiða á staðnum og á pósthúsi ef varan er send í póstkröfu. Við tökum við greiðslukortum á staðnum og í vefverslun.
Sjáið þið um samskipti við Sjúkratryggingar Íslands vegna styrkja?
Ef að þú hefur fengið staðfestingu á að þú eigir rétt á styrk þá sækjum við um greiðslu fyrir þig og þú greiðir aðeins mismuninn, ef einhver er.
Ég fann engan opnunartíma. Hvenær get ég rennt við?
Fyrir flestum er hárvandamál mikið feimnismál. Til að öllum geti liðið vel í því ferli að leita sér úrbóta þá ákváðum við að hafa ekki opnunartíma heldur bjóða frekar uppá tímapantanir.
Svo að: Ekki renna við. Bókaðu tíma á heimasíðunni eða hringdu:
Sirrý: 820 9323 Sólveig: 863 3476
Hvaða þjónustu bjóðum við upp á?
Við bjóðum upp á alhliða þjónustu fyrir þá sem eru að glíma við hárlos eða hárleysi. Við bjóðum upp á hárgreiningar og hármeðferðir. Erum með hárkollur, hártoppa,hárlengingar og höfuðföt. Einnig erum við í samstarfi við ítalskt fyrirtæki, CRlab þar sem við serhönnum hártoppa eða hárkollur eftir þörfum hvers og eins. Við bjóðum upp á persónulega þjónustu og ráðgjöf þér að kostnaðarlausu.
Hvernig fer ráðgjöf fram?
Þú hringir eða pantar tíma á noona.is og við finnum tíma sem hentar. Þegar þú kemur erum við með sérstakt herbergi þar sem við skoðum vandamálið og förum yfir hvað myndi henta þér best.
Hárkollur almennt
Hvernig móta ég og greiði hárkolluna?
Ef þú ert með hárkollu úr gervi hári þarf að varast allan hita. Það má ekki nota sléttujárn eða blásara með heitum blæstri. Hárkollan verður eins þegar þú hefur þvegið hana og í raun engin þörf á að móta hana upp á nýtt. Það er til sérstakt hársprey sem má nota í gervihár og einnig næring í sreyformi sem gott er að nota til að “hressa” aðeins upp á hana.
Þarf ég að hafa undirlag (þunna húfu) undir hárkollunni?
Nei, það er valkvætt og fer eftir hverjum og einum. Það er oft notað til að halda eigin hári niðri ef það er til staðar og ef ekki er hár til staðar er hægt að nota ef húðin er viðkvæm.
Hvernig helst hárkollan á höfðinu?
Hárkollan á að sitja vel á rétt eins og ef þú værir með húfu. Ef þú ert óörugg(ur) um að hún gæti hreyfst til, er til staðar á svo til öllum hárkollum stillanleg teygja við hnakkann sem hægt er að þrengja. Einnig er hægt að nota sérstakt lím sem heldur henni vel.
Hvernig set ég hárkolluna á?
Framhluti hárkollunnar situr við hárlínuna að framan. Ef hárlina er ekki til staðar þá er hægt finna hana þannig að setja fjóra fingur frá efsta hluta augabrúnar og þá ætti vísifingur að nema við hárlínuna. Á hliðum hárkollunnar koma einskonar bartar sem er mikilvægt að séu staðsettir fyrir framan eyrun svo hárkollan sitji beint.
Hversu oft þarf ég að þvo hárkolluna?
Það fer alveg eftir notkuninni og lífstíl.
Að öllu jöfnu þarf ekki að þvo hárkolluna eins oft og ef þú værir með þitt eigið hár. Tvisvar sinnum í mánuði er ekki óalgengt en getur verið oftar fyrir þá sem kannski svitna meira og þ.h. Það er sérstakt sjampó og næring sem ætlað er fyrir gervihár og fæst hjá okkur.
Hversu oft þvæ ég hárkolluna mína?
Það fer allt eftir því hversu oft þú notar hárkolluna. Ef þú notar hana á hverjum degi, mælum við með því að þú þvoir hana á 7-10 daga fresti. Mælum með því að nota alltaf leave-in næringarsprey fyrir og eftir notkun til halda raka, gljáa og heilbrigðu útliti. Hægt er að fá hársnyrtivörur sérstaklega hannaðar fyrir gervihár hjá Ossom.
Get ég farið í sund og ræktina með hárkolluna?
Já það er hægt en mikilvægt er að ef þú ferð í sund að þvo hárkolluna vel strax á eftir því klór fer ekki vel með hana. Ef þér líður vel með hárkolluna er ekkert sem mælir gegn því að stunda líkamsrækt með kolluna.
Get ég sofið með hárkolluna á mér?
Við mælum ekki með því að sofa með hárkolluna því það kemur niður á endingu hennar. Að öðru leyti er það í lagi.
Get ég tekið hárið upp eða sett greiðslur?
Já auðvitað!
Við mælum með að þú prófir þig áfram með því að setja allskyns spennur, klemmur eða teygjur en vertu bara varkár þegar þú tekur það úr, þannig að þú tosir ekki hár úr hárkollunni. Einnig þarf að vera meðvitaður um hárin sem eru fremst við enni og eyru, að skilja nokkur laus hár eftir þar.
Get ég breytt um skiptingu á hárkollunni?
Já, það er í flestum tilfellum hægt svo framarlega sem hárkollan er handgerð að ofan.
Get ég notað hvaða hárbursta sem er?
Við mælum alltaf með að nota mjúkan hárbursta. Alls ekki nota fíngerðar greiður því að þær geta flækt og skemmt grunnlag hárkollunnar.
Fiber Hárkollur
Get ég notað hitatæki (hárblásara, sléttujárn osfr.)?
Nei, alls ekki nota hitatæki á gervi hár eins og hárblásara, sléttujárn o.þ.h
Farðu einnig varlega þegar þú opnar heitan bakaraofn og eins ef þú ert undir hitara eins og notaðir eru utandyra t.d.
Almennt þarf bara að passa allan hita í kringum hárkolluna.
Get ég notað allar hárvörur á hárkolluna?
Til eru sérstaklega hannaðar hárvörur fyrir hárkollur úr fiber hári. Við mælum eindregið með að nota þær vörur, því þá tryggir þú að hárkollan haldi betur bæði lit sínum og upprunanlegum gæðum. Hjá Ossom getur þú fengið hágæðavörur fyrir hárkolluna þína.
Mig langar að hafa ákveðna klippingu, get ég látið klippa hárkolluna?
Það er til mikið úrval af hárkollum í mismunandi síddum, litum og klippingum. Ef þú hinsvegar ert búin að finna hárkollu sem þér líkar en langar aðeins að láta laga eins og t.d að þynna, stytta top o.þ.h er það hægt. Við mælum með að þú látir gera það hjá þeim sem hafa sérþekkingu í því. Við hjá Ossom útlit getum veitt þá þjónustu og höfum sótt námskeið erlendis hjá aðilum sem sérhæfa sig í því.
Mun liturinn alveg haldast á hárkollunni?
Með tímanum dofnar liturinn. Mikilvægt er að nota viðeigandi hárvörur sem eru sérstaklega hannaðar fyrir hárkolluna til að hægja á upplitun. Hárkollur úr fíberhári má aldrei lita eða aflita.
Hversu lengi dugar hárkollan?
Það fer eftir sídd hárkollunnar, notkun og meðhöndlun. Meðallíftími er um 6 mánuðir.
Hárkollur úr mannshári
Hver er munurinn á hárkollu úr fíberhári og hárkollu úr mannshári?
Munurinn er sá að mannshár er almennt mýkra. Þú getur litað hárið, notað hitatæki og skipt um greiðslur. Mannshárs hárkollur eru mun dýrari en hárkollur úr fíberhári. Ástæðan fyrir því að þær eru algjörlega handunnar frá grunni. Það tekur yfir 80 klst að vinna eina hárkollu. Endingin er vanalega lengri, eða um 9 mánuði en fer þó eftir hversu mikið hún er meðhöndluð.
Við mælum yfirleitt með að fá sér hárkollu úr fiberhári ef hárleysið er tímabundið eins og t.d vegna aukaverkana lyfja. Þá er mun þæginlegra að þurfa ekki að standa í að blása og/eða greiða hárkolluna í hvert skipti.
Ef þú ert að glíma við varanlegt hárleysi mælum við eindregið með að fá þér hárkollu úr mannshári. Það eru til margar mismunandi hárkollur til, hvort sem er tilbúnar eða sérhannaðar fyrir þig. Mælt er með að eiga 2 hárkollur því ef hárkollan er farin að láta á sjá þá er hægt að senda hana til þjónustuaðila okkar og látið lagfæra hana. Þú getur fengið nánari upplýsingar um þessa þjónustu hjá okkur í Ossom og við ráðleggjum þér hvað gæti hentað best.